Umhverfisverðlaun Rangárþings eystra voru veitt á Kjötsúpuhátíðinni síðastliðinn laugardag. Það er umhverfis- og náttúruverndarnefnd sveitarfélagsins sem veitir verðlaunin árlega.
Verðlaunin voru þau veitt í þremur flokkum að þessu sinni og það var Ísólfur Gylfi Pálmason, sveitarstjóri, sem afhenti verðlaunin.
Fegursti garður sveitarfélagsins er garður þeirra Guðjóns Einarssonar og Þuríðar Kristjánsdóttur við Hlíðarveg 13 á Hvolsvelli. Þess má geta að í janúar á þessu ári voru 60 ár síðan þau Guðjón og Þuríður fluttu í húsið við Hlíðarveg 13.
Snyrtilegasta lögbýlið, þar sem stundaður er landbúnaður, var valið Skarðshlíð 1 en þar eru ábúendur Ólafur Tómasson og Kolbrún Hjaltadóttir.
Snyrtilegasta umhverfi fyrirtækis var valið Hótel Fljótshlíð í Smáratúni en þar ráða ríkjum þau Arndís Soffía Sigurðardóttir og Ívar Þormarsson.