Hjallastefnan hin nýja á Eyrarbakka bauð til þrettándaveislu í Félagsheimilinu Stað á Eyrarbakka í hádeginu síðastliðinn mánudag.
Á borðum var þjóðlegt sjávarfang sem veitt var af vinum Hjallastefnunnar og síðan verkað á athafnasvæðinu við Félagsheimilið Stað á síðustu mánuðum. Um er að ræða siginn fisk sem hangið hefur néðan í útsýnispallinum á Stað við hinar bestu aðstæður. Einnig saltaður þorskur og langa sem flött voru á Aldamáthátíðinni við Stað og síðan sólþurrkað þar í framhaldinu.
Þessi verkun hefur notið gríðarlega vinsælda þeirra tugþúsunda erlendu ferðamanna sem komið hafa að Stað á Eyrarbakka og myndað eins og hver önnur náttúruundur á Suðurlandi.
Í forrétt var kæst skata úr Grindavík sem tengdi þessa Hjallastefnuhátíð skemmtilega við Þorláksmessuhefðir Hrútavinafélagsins á vetri sem sumri við skötusnæðing.
Rúmlega 30 manns tóku þátt í þessari velheppnuðu samkomu Hjallastefnunnar sem Siggeir Ingólfsson, yfirstrandvörður Hrútavinafélagsins og forseti þess, Björn Ingi Bjarnason, stjórnuðu.
Sérstakir þátttakendur á eigin vegum og faglegir eftirlitsmenn á samkomunni voru nokkrir starfsmenn hjá Matvælastofnunar og Hafrannsóknarstofnunar og blessuðu þeir allt sem fram fór.
Myndir frá viðburðinum má sjá á Menningar-Stað