Þrír erlendir ferðamenn eru alvarlega slasaðir eftir bílveltu á Biskupstungnabraut skammt vestan við Svínavatn kl. 10:25 í morgun.
Sex voru í bílnum og voru tveir fluttir með þyrlu Landhelgisgæslunnar á slysadeild Landspítalans. Einn fór sömu leið með sjúkrabíl en þrír voru fluttir á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi með minniháttar meiðsli.
Ökumanni bifreiðarinnar fipaðist þegar hann ók út í lausamöl í vegkantinum hægra megin og sveigði snögglega inn á veginn aftur. Bifreiðin fór þá hálf útaf veginum vinstra megin og þegar bílstjórinn reyndi að beygja upp á veginn aftur valt bíllinn, eina eða tvær veltur. Bíllinn var á austurleið.
Lögreglumenn sem sunnlenska.is ræddi við á vettvangi gátu ekki fullyrt hvort fólkið hafði verið í bílbelti en miðað við áverkana sem þeir slösuðu hlutu töldu þeir ólíklegt að bílbelti hafi verið notuð.
Biskupstungnabraut var lokuð á meðan lögregla og sjúkralið vann á vettvangi en til stóð að opna veginn aftur klukkan 12.