Björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar í Árnessýslu björguðu í kvöld þremur 15 ára piltum og einum hundi úr sjálfheldu í Ingólfsfjalli, til móts við Kögunarhól.
Útkallið barst rétt eftir klukkan fimm í dag og tóku um þrjátíu manns þátt í aðgerðinni. Aðstæður voru erfiðar í fjallinu og var aðeins sérhæft fjallabjörgunarfólk sent upp í fjallið.
Nokkra línuvinnu þurfti til að hægt væri að koma piltunum niður úr brattanum. Þeir voru illa búnir og því orðnir nokkuð kaldir eftir vistina í fjallinu.
Þyrla Landhelgisgæslunnar var í æfingarflugi og var beint á staðinn þar sem í fyrstu var talið að leita þyrfti að fjórða drengnum sem fór á undan félögum sínum úr fjallinu. Svo reyndist ekki vera þar sem hann skilaði sér fljótlega til lögreglu sem er á bílastæði fyrir neðan fjallið. Þyrlan var til taks á svæðinu þangað til verkefninu lauk.
UPPFÆRT KL. 20:32