Þrír bílar ultu í umdæmi lögreglunnar í síðustu viku, meiðsli voru minniháttar en eignatjón töluvert.
Á þriðjudag valt fólksbifreið á Kjalvegi skammt ofan við Gullfoss. Sjö erlendir ferðamenn voru í bílnum sem fór heila veltu. Enginn slasaðist enda allir í öryggisbelti og bifreiðin á um það bil 50 km hraða þegar hún fór útaf veginum.
Vörubifreið með tengivagni valt síðastliðinn fimmtudag á Laugarvatnsvegi við Böðmóðsstaði. Ökumaður slasaðist minni háttar. Hálka var á veginum þegar slysið átti sér stað. Ökumaður var að víkja undan vörubifreið sem kom á móti en ökumaður þeirrar bifreiðar hafði ekki fulla stjórn á henni í hálkunni. Bifreiðin sem valt var fulllestuð og skemmdist töluvert.
Þriðja bílveltan var aðfaranótt sunnudags á Gaulverjabæjarvegi við Flóaskóla. Þar valt fólksbifreið sem í voru fimm manns. Hálka var og slæm akstursskilyrði. Einn farþega var fluttur með sjúkrabifreið á heilsugæslustöðina á Selfossi til skoðunar en sá fann fyrir bakverkjum. Aðrir voru með minni háttar áverka.