Bæjarráð Sveitarfélagsins Árborgar samþykkti á fundi sínum í síðustu viku að settar yrðu upp þrjár öryggismyndavélar á Selfossi. Ein myndavélin verður við Ölfusábrú, ein hjá hringtorginu við Bónus og ein við afleggjarann að flugvellinum.
Reiknað er með því að þær verði komnar í gagnið í vor.
Myndavélarnar verða tengdar beint inn til lögreglu þannig að hún geti fylgst með öllu því sem þar fer fram, en verkefni þetta er unnið í samstarfi við lögregluna. Nokkrir aðilar á Selfossi, þ.á.m. fulltrúa hestamanna, hafa hvatt til þess að myndavélar sem þessar verði settar upp til þess m.a. að auðveldara verði að upplýsa um þjófnað á svæðinu.
Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Sveitarfélagsins Árborgar, segist vonast til þess að myndavélarnar muni hafa fælingarmátt og að samskonar búnaður hafi reynst vel þar sem hann hefur verið settur upp. „Þá verður líka möguleiki að hafa myndavélarnar í beinni á heimasíðu sveitarfélagsins þannig að fólk geti fylgst með veðri og umferð,“ sagði Ásta í samtali við Sunnlenska.