Héraðsdómur Suðurlands dæmdi Matthías Mána Erlingsson, sem strauk úr fangelsinu á Litla-Hrauni í desember í fyrra, í þrjátíu daga fangelsi á dögunum fyrir þrjú hegningarlagabrot í tengslum við strokið.
Matthías Máni var ákærður fyrir að brjótast inn í sumarbústað við Neistastaði í Flóahreppi og stela þaðan fatnaði og fjórhjóli. Einnig var hann ákærður fyrir innbrot í sumarbústað í landi Reykjadals í Hrunamannahreppi þar sem hann hafðist við í þrjá sólarhringa og nýtti sér húsmuni og stal ýmsum matvælum til neyslu auk einnar skáldsögu.
Þá braust hann einnig inn í sumarbústað í landi Stóra-Hofs í Gnúpverjahreppi og stal þaðan haglabyssu og riffli, matvöru, kíki, landakortum, snæri, vasaljósi, exi, verkfærum, úlpu, bakpoka og kaffibrúsa.
Strokufanginn viðurkenndi sök við aðalmeðferð málsins og var hann dæmdur í þrjátíu daga fangelsi auk greiðslu tæplega 430 þúsund króna í sakarkostnað.