Þorgrímur Daníelsson, sóknarprestur á Grenjaðarstað, hyggst ganga á þrjátíu fjöll eða tinda í ágúst til að vekja athygli á Landspítalasöfnun þjóðkirkjunnar.
Sem kunnugt er hefur þjóðkirkjan hrundið af stað söfnun til kaupa á geislatæki, svonefndum línuhraðli, sem notaður er við krabbameinslækningar á Landspítalanum. Þau tæki sem nú eru í notkun eru komin til ára sinna og bila oft. Með áskorun sinni við tindana vill Þorgrímur hvetja landsmenn til að leggja söfnuninni lið.
Þorgrímur mun ganga á fjöll víða um land. Hverjum sem vill er velkomið að slást með í för – á eigin ábyrgð að sjálfsögðu. Hægt verður að fylgjast með ferðum sr. Þorgríms á Facebook- síðunni 30 tindar í ágúst. Þar verður birt gönguáætlun næstu daga eftir því sem veður leyfir.
„Þessar göngur mínar verða spilaðar svolítið eftir veðri og kröftum. Það þýðir að ég er með all nokkur fjöll í sigti í hverjum landshluta en eins og er er ég ekki með dagsetta áætlun,“ sagði Þorgrímur í samtali við sunnlenska.is og bætti við að hann gæti hugsað sér að ganga á allnokkur fjöll á Suðurlandi.
„Sunnlensk fjöll á óskalistanum eru eins og eru Hekla, Ingólfsfjall, Þríhyrningur, Vörðufell hjá Skálholti, Búrfell í Þjórsárdal, Eyjafjallajökull, Móði og Lómagnúpur. Einnig hefur mér verið boðið á Heimaklett. Verði norðanátt ríkjandi í ágúst gæti fjöllum á suðurlandi fjölgað – og öfugt ef Drottinn lætur hinn veginn snúa,“ bætti Þorgrímur við að lokum.
Söfnunarreikningur Landspítalasöfnuninnar er 0301-26-050082, kt. 460169-6909.