„Samkvæmt Vegaáætlun 2009-2012 og deiliskipulagi sem verið hafa í gildi þá setjum við upp þrjú hringtorg á Biskupstungnabraut á næsta ári.“
Þetta segir Svanur Bjarnason, umdæmisstjóri Vegagerðarinnar í samtali við Sunnlenska.
„Tvö verða sett upp við Reykholt og eitt við Borg. Það er hins vegar verið að verkhanna þau nákvæmlega og magnmæla. Það er þó hugsanlegt að einungis eitt hringtorg verði sett upp við Reykholt því sveitarfélögin taka þátt í kostnaði við framkvæmdirnar auk þess sem Vegaáætlun er í endurskoðun í vetur og við eigum eftir að sjá hvort fjárveitingar verða óbreyttar,“ segir Svanur.
Að sögn Svans byggist kostnaðarþátttaka sveitarfélaga vegna hringtorga á því að þau greiða kostnaðinn af sínum afleggjara við hringtorgið.
Meðalkostnaður við hringtorg er um 50 milljónir og því gæti Grímsnes- og Grafningshreppur þurft að greiða 12,5 milljónir fyrir sitt hringtorg og Bláskógabyggð 25 milljónir fyrir sín tvö.
Hvað varðar kostnaðarhlutdeild vegna undirganga líkt og Grímsnes- og Grafningshreppur vill láta leggja við Borg þá hefur verið vaninn að Vegagerðin greiði fyrir efnið en sveitarfélögin sjái um jarðvinnuna líkt og var gert við Flúðir.
Svanur segir að lítið verði um stórar framkvæmdir hjá Vegagerðinni á Suðurlandi á næsta ári þó það eigi eftir að koma betur í ljós. Ráðgert er meðal annars að breikka tvær einbreiðar brýr og taka upp nokkur gömul ræsi.