Síðastliðinn föstudag varð hjólandi barn á sjöunda ári fyrir bíl í botnlanga í íbúðargötu á Selfossi.
Barnið var flutt til aðhlynningar á sjúkrahúsi en það hlaut skurð og mar á fæti af árekstrinum en er ekki talið alvarlega slasað.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á Suðurlandi.
Þá er drengur talinn úlnliðsbrotinn eftir að hann féll við boltaleik á leiksvæði við Vallaskóla á Selfossi í síðustu viku.
Einnig slasaðist hestamaður sem féll af baki í reiðtúr í Gnúpverjahreppi. Hann og félagi hans voru án farsíma þegar slysið varð og þurfti félaginn að ríða heim að næsta bæ til að sækja aðstoð. Maðurinn var fluttur á sjúkrahús en hafði kólnað nokkuð við það að bíða aðstoðarinnar.