Einstaklega mikið álag var á lögreglunni á Suðurlandi í liðinni viku. Alvarleg slys, heimilisofbeldi og líkamsárásir vógu þungt.
Í allt voru 322 verkefni skráð á þessu tímabili. Um miðja vikuna gistu samtímis fjórir fangageymslur á Selfossi sem er með því mesta sem gerist á miðjum degi í miðri viku.
Þrívegis var lögreglan kölluð til vegna heimilisofbeldis sem í öllum tilvikum kölluðu á handtöku og vistun ofbeldismanns. Mikil rannsóknarvinna er í tengslum við þessi mál og margir sem að þeim koma.
Í dagbók lögreglunnar segir að þetta séu mál sem verður að bregðast við strax og óhjákvæmilegt að leggja önnur verkefni til hliðar á meðan. Frumrannsókn verður að vinna hratt svo hægt sé að ljúka þeirri vinnu sem þarf að gera áður en ofbeldismaðurinn er látinn laus. Þá er lögreglustjóri yfirleitt búinn að brottvísa brotamanninum af heimili og úrskurða í nálgunarbann. Það getur hann þó ekki gert nema hafa til hliðsjónar rannsóknargögn.
Einn þeirra manna sem úrskurðaður var í nálgunarbann braut það með því að senda frá sér SMS skilaboð. Hann mun verða ákærður fyrir það.