Þröng staða gæti kallað á sameiningu

Sveitastjórnarmenn Skaftárhrepps og Mýrdalshrepps funduðu með Ögmundi Jónassyni innanríkisráðherra í síðustu viku þar sem farið var yfir bága fjárhagsstöðu sveitarfélaganna.

Á fundinum voru einnig formaður og framkvæmdastjóri Samtaka íslenskra sveitarfélaga, þeir Halldór Halldórsson og Karl Björnsson.

Að sögn Guðmundar Inga Ingasonar, oddvita Skaftárhrepps, var farið yfir bága fjárhagsstöðu sveitarfélaganna og til hvaða úrræða væri hægt að grípa.

Sveitarstjórn Skaftárhrepps hefur látið vinna endurskoðun á fjárhagsáætlunar 2011 um leið og hafinn er undirbúningur að fjárhagsáætlunar 2012. Að sögn Guðmundar stefnir í að þetta ár verði jafn erfitt og það síðasta en þá var 29 milljóna króna tap af rekstri sveitarfélagsins.

Guðmundur sagði að erfitt væri að finna úrræði en ráðherra hefði verið gerð grein fyrir að mjög erfitt væri að þola frekari niðurskurð á framlagi úr jöfnunarsjóði. Þá sé þröngt um vik með að skerða þjónustu eða auka tekjur.

,,Þetta er mjög þröng staða og þó við séum að skoða allar leiðir til að finna lausnir þá eru engar töfralausnir til,” sagði Guðmundur um leið og hann bætti við að það vantaði ,,vítamínssprautu” á svæðið.

Möguleikar á sameiningu sveitarfélaga hafa verið skoðaðir en Guðmundur vildi ekkert segja til um hvort hún yrði að veruleika.

Fyrri greinOddný G: Svar til Heimis
Næsta greinEndurmeta fasteignir á Nesjavöllum