„Gullin í grenndinni“ er nýlegt þróunarverkefni skólanna á Selfossi undir forystu leikskólans Álheima en verkefnið hefur fengið styrk úr Sprotasjóði.
Markmið verkefnisins er að m.a. að efla grenndarnám með kortlagningu á grenndarskóginum og skráningu náttúru- og fornminja. Starfið gengur út á það að nemendur skólanna upplifi náttúruna og nærsamfélagið á fróðlegan og skemmtilegan hátt og að skólastigin tengist í gegnum verkefnið.
Í frétt á heimasíðu Árborgar segir að gott samstarfsnet skóla efli félagsauð samfélagsins og styrking netsins er í góðu samræmi við auknar kröfur sem eru gerðar til skólanna að þessu leyti í aðalnámskrám leik,- grunn- og framhaldsskóla.
Þátttakendur í samstarfsverkefninu eru í dag leikskólinn Álfheimar, Vallaskóli, leikskólarnir Hulduheimar og Jötunheimar og Sunnulækjarskóli. Aðrir sem koma að verkefninu með stuðning og ráðgjöf eru Suðurlandsskógar, umhverfisdeild Árborgar, Skógræktarfélag Selfoss og Ólafur Oddsson, uppeldisráðgjafi og verkefnisstjóri Lesið í skóginn.
Samstarfsverkefnið er þannig upp byggt að fleiri samstarfsaðilar geta hvenær sem er bæst í hópinn.