Þrýst á að hraða leikskólabyggingu

Fræðslunefnd sveitarfélagsins Ölfuss beinir því til bæjarfulltrúa að þeir taki ákvörðun um nýbyggingu leikskóla hið fyrsta og hefji framkvæmdir.

Umræðan um nauðsyn byggingarinnar hefur aukist nokkuð í sveitarfélaginu á síðustu vikum. Bygging nýs leikskóla hefur lengi verið á dagskrá sveitarfélagsins en málið olli uppnámi í aðdraganda síðustu sveitarstjórnarkosninga vegna deilna um kostnað.

Ekki þykir grundvöllur fyrir því að byggja skólann útfrá þeirri hönnun sem gerð var á sínum tíma þar sem kostnaður þótti hár.

Á síðasta fundi fræðslunefndar lagði Dagný Erlendsdóttir, leikskólastjóri, til að fræðslunefnd beiti sér fyrir því að framkvæmdum við fyrirhugaða nýbyggingu verði hraðað eins og lofað var í síðustu kosningum sem og í kosningum áranna á undan.

Að sögn Guðna Péturssonar bæjarritara er verið að skoða alla kosti, menn vilji leysa úr málefnum skólans, en þröngt þykir orðið um alla starfsemi í skólanum ekki síst aðstöðu kennara og annars starfsfólks.

Samkvæmt heimildum Sunnlenska þykir eldri hluti núverandi húsnæðis orðinn lélegur og búist er við að á næstu fjárhagsáætlun verði gert ráð fyrir fjármunum til að taka fyrstu skrefin í átt að byggingu nýs skólahúsnæðis.

Fyrri greinLestrardagbók gefin 7. bekkingum
Næsta greinRafmagn leitt í Veiðivötn