Fjölga þarf í lögreglunni á Suðurlandi um tíu manns hið minnsta og veita aukalega tvö hundruð milljónum króna til þess að auka öryggi ferðamanna. Þetta segir lögreglustjórinn á Suðurlandi.
RÚV greinir frá þessu.
Lögreglustjórinn á Suðurlandi átti fund með ráðuneytisstjórum innanríkisráðuneytis og iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis. Banaslys varð í gærmorgun þegar aldan í Reynisfjöru í Mýrdal hrifsaði með sér kínverskan ferðamann.
Á fundinum var ákveðin neyðaráætlun til tveggja vikna, segir Kjartan Þorkelsson lögreglustjóri í samtali við RÚV. „Það verður vakt þarna yfir daginn, tveir lögreglumenn á vakt, einn til tveir, eftir atvikum,“ segir Kjartan og bætir við að vaktin verði þann tíma dags sem ferðamenn eru í fjörunni. „Það liggur fyrir vilyrði að við fáum þetta greitt og jafnframt verður strax farið í áhættugreiningu á Reynisfjöru og til hvaða aðgerða þurfi að grípa og það var miðað við að öllu þessu væri lokið innan hálfs mánaðar,“ segir Kjartan.
„Við erum fámennir en við munum reyna að útvega okkur mannskap til að leysa þetta. Við fórum fram á auknar fjárveitingar á þessu ári upp á 200 milljónir, til þess að takast á við þetta,“ segir Kjartan og bæti við að auka þurfi eftirlit við fleiri staði, til að mynda Jökulsárlón og við jaðar Sólheimajökuls.