Þurfa samning til að starfa á Þingvöllum

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið birti fyrir helgi drög að frumvarpi um breytingar á lögum um þjóðgarðinn á Þingvöllum og Vatnajökulsþjóðgarð. Í frumvarpsdrögunum er lagt bann við rekstri atvinnutengdrar starfsemi innan Þjóðgarðsins á Þingvöllum nema að gerðum samningi við þjóðgarðsyfirvöld.

RÚV greinir frá þessu

Að auki þarf að afla leyfis vegna skipulagðra viðburða og verkefna innan þjóðgarðsins. Loks er kveðið skýrt á um heimildir þjóðgarðsyfirvalda til að taka gjald fyrir veitta þjónustu innnan þjóðgarðsins.

Breytingarnar eru í samræmi við lög um Vatnajökulsþjóðgarð, sem eru þremur árum yngri en lögin um Þjóðgarðinn á Þingvöllum. Bætt er við heimild til gjaldtöku í Vatnajökulsþjóðgarði.

„Fjöldi gesta sem leggur leið sína í þjóðgarðinn á Þingvöllum hefur margfaldast á síðustu árum með þeim afleiðingum að ekki hefur verið tækt að halda uppi virkri náttúruvernd, varðveislu menningarminja og vinna að uppbyggingu á svæðinu með fullnægjandi hætti,“ segir í greinargerð með frumvarpinu. „Kveður frumvarp þetta á um breytingar á núgildandi löggjöf sem er ætlað að stuðla að því að hægt verði að taka á móti öllum þeim fjölda gesta sem leggur leið sína í þjóðgarðinn án þess að röskun verði á náttúru og menningarminjum.“

Frétt RÚV

Fyrri greinByko-hrafninn í beinni
Næsta greinVar þris­var greind vit­laust