Snælduvitlaust veður er á Hellisheiði sem er lokuð fyrir umferð. Hjálparsveitarmenn úr Hveragerði hafa aðstoðað ökumenn þar í morgun en eitthvað er um að lokunin sé ekki virt.
„[Við aðstoðuðum] einhverja sem höfðu lent í hremmingum á leiðinni í morgun. Tekin var ákvörðun um að keyra á undan bílunum og tryggja að allir kæmust heilir sinnar leiðar,“ segir á Facebooksíðu hjálparsveitarinnar.
Vegna skyggnis hafa félagar HSSH þurft að stökkva út og ganga með bílnum. „Við þurftum að teyma bílinn áfram svo við enduðum ekki útaf.“