Nýr skrúðgarður var vígður á Stokkseyri á sjómannadaginn. Garðurinn er við Ranakot og var fyrstu plöntunum plantað þar í gær.
Nú eru 67 ár frá því að samþykkt var í stjórn Stokkseyringafélagsins í Reykjavík að settur yrði á stofn skrúðgarður á Stokkseyri.
Það varð að veruleika í gær en garðurinn hlaut nafnið Þuríðargarður. Eina Þuríður sem nú býr á Stokkseyri, Kristín Þuríður Sigurðardóttir, afhjúpaði skilti með nafni garðsins.
Síðan voru gróðursettar þrjár trjáplöntur frá Gróðrastöðinni Heiðarblóma á Stokkseyri sem eigendur stöðvarinnar settu niður með hjálp leikskólabarna á Stokkseyri. Í lokin sungu börnin fyrir hina fjölmörgu gesti sem voru við þessa ánægjulegu athöfn.