Forsvarsmenn Sunnlenska sveitadagsins sem haldinn er í dag á Selfossi áætla að rúmlega tólfþúsund manns hafi tekið þátt í hátíðarhöldunum.
Sunnlenski sveitadagurinn er árleg hátíð sem haldin er á athafnasvæði Jötunn-Véla og Vélaverkstæðis Þóris á Selfossi. Þar kynna sunnlensk fyrirtæki framleiðslu sína og gestir fá að smakka á fjölbreyttum krásum.
Meðal þess sem var í boði er heilgrillað naut og fjölbreyttar kjötafurðir, grænmeti, ís, bjór, mjólkurvörur, sultur og karamellur.
Fjölbreytt skemmtun var fyrir börnin, þrautabraut, andlitsmálning og blöðrur auk þess sem Björgvin Franz og Jóhann G skemmtu gestum. Þá gátu gestir haldið á kanínum og klappað hestum, kálfum, grísum og fleiri dýrum.