Rekstur Þykkvabæjar-kartöfluverksmiðjunnar ásamt húsnæði og dreifingu er nú í söluferli og ýmsir sýnt því áhuga að eignast fyrirtækið.
Reksturinn er að stærstum hluta í Þykkvabæ, þar sem um 15 af 22 starfsmönnum starfa. Miðað er við að verksmiðjan verði þar áfram. Hluthafar eru um 30 talsins, langmest kartöflubændur í Þykkvabæ og nágrenni.
Eftir því sem næst verður komist hefur af og til verið falast eftir kaupum á fyrirtækinu. Ekki er langt síðan tilboð barst sem eigendum fannst ástæða til að skoða betur og var í framhaldinu ákveðið að fá KPMG til að stilla upp sölugögnum og kynna áhugasömum aðilum. Málið er statt þar en frestur til að bjóða í fyrirtækið er ekki ýkja langur, og er allt eins líklegt að það verði búið að skipta um eigendur í sumar.
Velta fyrirtækisins á síðasta ári losaði 600 milljónir króna og hagnaðurinn nam rúmum 40 milljónum króna, og er það mesti hagnaður í sögu félagsins. Afurðir fyrirtækisins eru landsþekktar og hleypur fjöldi vörumerkja á tugum.