Björgunarsveitirnar í Hveragerði, Þorlákshöfn, Árborg og á Eyrarbakka voru kallaðar út rétt fyrir hádegi í dag til að aðstoða göngumann sem hafði slasast á fæti í Reykjadal.
Björgunarsveitarmenn fóru á vettvang ásamt sjúkraflutningamönnum en aðstæður á vettvangi voru erfiðar og ljóst að bera þurfti manninn um nokkra leið. Í ljósi aðstæðna var þyrla Landhelgisgæslunnar kölluð til og sótti hún manninn. Þá var aðstoð björgunarsveita af höfuðborgarsvæðinu afturkölluð.
Þetta var í annað skipti á tveimur dögum sem björgunarsveitirnar aðstoða göngufólk í Reykjadal en í gær voru þær kallaðar út vegna örmagna göngumanns. Maðurinn gat gengið móts við félaga Hjálparsveitar skáta í Hveragerði og fylgdu þeir honum niður síðasta spölinn.
Myndbandið hér að neðan sýnir vel þær aðstæður sem voru á vettvangi.