Umhverfisstofnun mun frá og með morgundeginum, 1. júní, opna gönguleiðir á náttúruverndarsvæðunum Fjaðrárgljúfri og Skógaheiði ofan Skógafoss.
Stofnunin vill beina því til gesta að mjög mikilvægt er að einungis sé gengið eftir merktum gönguleiðum og að aldrei sé farið yfir girðingar eða inn á svæði þar sem umferð er takmörkuð vegna viðkvæms gróðurs eða dýralífs.
Margir virtu lokanir að vettugi
Í tilkynningu frá Umhverfisstofnun segir að lokanir hafi skilað góðum árangri og hefur tekist að draga úr hnignun þessara svæða. Gróður hefur tekið vel við sér meðfram göngustígum og eru stígar orðnir þurrir þar sem frost er farið úr jörðu og vatn á greiðari leið ofan í jarðveginn. Svæðin eru þó bæði illa farin vegna mikillar umferðar þar sem innviðir eru takmarkaðir til að vernda þau gegn átroðningi.
Það hefur oft reynst þrautinni þyngri að halda svæðunum lokuðum og allt of margir gestir hafa virt lokanirnar að vettugi. Til þess að lokanir virka sem skyldi, þarf landvörður ávallt að vera til staðar til að fræða gesti um ástæður lokananna og auka þannig skilning fólks og virðingu fyrir náttúrunni.