Fjölskylduhjálp Íslands hefur opnað nytjamarkað í Kjarnanum á Selfossi þar sem verslunin Barón var staðsett áður. Markaðurinn opnaði í lok júní en fyrir eru markaðir í Reykjavík, í Kópavogi og í Reykjanesbæ.
Margrét Harðardóttir er verkefnisstjóri Fjölskylduhjálparinnar. Hún segir að markaðurinn hafi fengið mjög góðar viðtökur og að viðskiptavinirnir séu mjög ánægðir.
Margrét segir að á markaðnum sé að finna notuð og ný föt. „Við fáum fatasendingar úr Reykjavík og svo tökum við á móti fötum hér á staðnum.“
Markaðurinn ætti ekki að fara fram hjá fólki þegar það kemur inn í Krónuna því við blasir gluggi með skemmtilegum útstillingum.
Á markaðnum kennir einnig ýmissa grasa. Þar má finna búning sem einhver útskriftarneminn hefur notað við dimmiteringu, bikiní með hlébarðamunstri og handtöskur í öllum regnbogans litum.
Og verðið er heldur ekki af verri endanum en Margrét segir að það sé allt undir kostnaðarverði. „Hægt er að fá notuð barnaföt á 100 krónur og höldupoka fullan af fötum á þúsund krónur.“
Allur ágóði af markaðnum rennur til matarsjóðs Fjölskylduhjálpar Íslands en þangað geta þeir leitað sem minna mega sín. Margrét segir að stefnt sé að því að hefja samstarf við Krónuna sem er næsti nágranni markaðarins. Þannig munu þeir sem á þurfa að halda geta fengið matarkort frá Krónunni en margir sem búa á svæðinu þurfa að leita til Reykjavíkur eftir mataraðstoð.