Upplýsingamiðstöðin sem starfrækt er í félagsheimilinu Stað á Eyrarbakka framkvæmdi á dögunum talningu á fjölda þeirra gesta sem fóru upp á útsýnispallinn sem verið er að byggja á sjóvarnargarðinum við Stað.
Talningin stóð í sjö daga og var talið frá kl. 8 að morgni til kl. 17 sem er venjulegur opnunartími upplýsingamiðstöðvarinnar.
1.841 gestur fór upp á útsýnispallinn þessa sjö daga. Þetta er að meðaltali 263 á dag eða 29 á hverri klukkustund sem talningin stóð yfir.
Flestir komu gestirnir síðan við í upplýsingamiðstöðinni í spjall og kaffisopa og notuðu hina ágætu salernisaðstöðu sem þarna er.