10. bekkingar Hvolsskóla útnefndir varðliðar umhverfisins

Í tilefni af Degi umhverfisins í gær útnefndi umhverfisráðherra nemendur í 10. bekk Hvolsskóla varðliða umhverfisins.

Afhending viðurkenningarinnar fór fram við athöfn í Þjóðmenningarhúsinu í gær.

Verkefnasamkeppnin Varðliðar umhverfisins er samstarfsverkefni umhverfisráðuneytisins, Landverndar og Náttúruskóla Reykjavíkur og er haldin árlega meðal nemenda í 5.-10. bekk í grunnskólum landsins. Markmiðið er að hvetja ungt fólk til góðra verka í umhverfisvernd, vekja athygli á sýn ungs fólks á umhverfismál og kalla eftir leiðsögn yngri kynslóðarinnar á því sviði.

Nemendur Hvolsskóla voru útnefndir varðliðar umhverfisins fyrir faglega skýrslu um umhverfisáhrif vegna framkvæmda við Landeyjahöfn.

Í skýrslunni leitast nemendur við að varpa ljósi á umfang framkvæmdanna og áhrif þeirra á umhverfið með því að flétta viðfangsefnið inn í stærðfræði, eðlisfræði og náttúrufræði. Reiknaður var út umhverfiskostnaður af framkvæmdum í Landeyjahöfn, m.a. fundin út koltvísýringsmengun af flutningum grjóts í brimvarnargarð.

Einnig voru borin saman þau áhrif sem eru af siglingum til Þorlákshafnar annars vegar og til Landeyjahafnar hins vegar með því að reikna út kostnað vegna olíunotkunar og magn koltvísýrings sem losnar út í andrúmsloftið á þessum tveimur siglingaleiðum. Að lokum veltu nemendur fyrir sér ávinningi landgræðslu með tilliti til bindingar koltvísýrings til að draga úr umhverfisáhrifum framkvæmdanna.

Fyrri greinBorgarafundur í Kirkjuhvoli
Næsta greinSelfyssingar byrja degi seinna