100 íbúðir í byggingu og íbúarnir aldrei fleiri

Hvolsvöllur. Ljósmynd/hvolsvollur.is

Íbúar Rangárþings eystra voru 2.167 talsins þann 1. janúar síðastliðinn og hafa aldrei verið fleiri. Fjölgunin nam 7,97% á milli ára.

„Sveitarfélagið stendur vel, innviðir eru sterkir, uppbygging heldur áfram sem aldrei fyrr og íbúum okkar heldur áfram að fjölga“, segir Anton Kári Halldórsson sveitarstjóri Rangárþings eystra.

„Fjölgun íbúa er jákvæð þróun en kallar á mikla ábyrgð. Við þurfum að tryggja að innviðirnir okkar standist þessa fjölgun og að við getum veitt íbúum lögbundna þjónustu. Sveitarstjórnin tekur þetta hlutverk alvarlega og horfir björtum augum til framtíðarinnar.“

Mikil uppbygging íbúða
Fjölgun íbúa kallar á aukna uppbyggingu húsnæðis og þar er Rangárþing eystra engin undantekning. Um 100 íbúðir eru nú í byggingu víðs vegar um sveitarfélagið. Þessar íbúðir eru á mismunandi byggingarstigum, allt frá útgáfu byggingarleyfis til lokaúttektar.

„Það er mikilvægt að uppbygging húsnæðis haldi í við fjölgun íbúa,“ segir Anton Kári. „Undanfarin fjögur ár höfum við náð að halda jafnvægi á milli íbúðauppbyggingar og íbúafjölgunar.“

Anton segir að sveitarfélagið leggi áherslu á að skapa góðar aðstæður fyrir íbúa sína, bæði nýja og gamla. Með sterkum innviðum, öflugri uppbyggingu og blómlegu atvinnulífi sé Rangárþing eystra aðlaðandi staður til að búa og starfa.

Sem dæmi uppbyggingu má nefna nýja götu norðan við Bergþórugerði sem vantar nýtt nafn og þar er nú nafnasamkeppni í gangi.

Fyrri greinSjálfstæðismenn í Ölfusi styðja Guðrúnu
Næsta greinLindex og FRÍ stefna að því að „Lyfta heilli þjóð“