100 milljónir til SASS

Um 94 milljónir króna renna til verkefna á Suðurlandi í tengslum við sóknaráætlun landshluta fyrir tímabilið 2015 til 2019 en skrifað var undir samnings þess efnis í byrjun vikunnar.

Þessir fjármunir koma úr ríkissjóði, en samningsaðilinn á Suðurlandi er SASS, og munu samtökin sjá um útdeilingu fjármunanna í héraðinu.

Þessu til viðbótar leggja sveitarfélög á Suðurlandi um 8,4 milljónir króna til verkefnisins þannig að heildarsamningurinn á Suðurlandi hljóðar upp á 102,6 milljónir króna á ári.

Í nýjum samningi felst styrktaráætlun fyrir bæði svokallaða vaxtarsaminga og menningarsamninga. Alls var úthlutað 550 milljónum króna í heildina af hálfu ríkisins, en til viðbótar mun mennta- og menningarmálaráðuneytið leggja til fjármagn til áframhaldandi reksturs menningarmiðstöðva á Austurlandi og Suðurlandi og einnig munu nokkrar sértækar fjárveitingar renna inn í sóknaráætlanir einstakra landshluta.

Fjármunum var skipt milli landshlutanna eftir skiptareglu sem tók mið af fólksfjölda, stærð og fjölda atvinnusóknarsvæða, atvinnuleysi, íbúaþróunar, hagvaxtar og fjarlægða – bæði innan svæðis og til höfuðborgarsvæðisins.

Fyrri greinMikill áhugi fyrir þjóðmenningarsetri við Gullna hringinn
Næsta greinVegirnir nánast einn drullupyttur