Alls skrifuðu 102 íbúar í Flóahreppi undir undirskriftalista þar sem skorað var á sveitarstjórn að halda áfram með uppbyggingu á öflugu skóla- og íþróttastarfi á Villingaholti.
Þeir sem skrifuðu undir listann vilja sjá að því fé sem áætlað er til viðhalds og nýbyggingar fyrir leikskóla í Þingborg verði frekar varið í áframhaldandi uppbyggingu í Villingaholti þar sem þar sé nú þegar nægur húsakostur fyrir leik- og grunnskóla.
Undirskriftarlistinn var lagður fram á síðasta fundi sveitarstjórnar en þar var einnig lögð fram fundargerð vinnuhóps um leikskólamál þar sem gerðar voru tillögur að ýmsum framkvæmdum sem fyrirhugaðar eru í Þingborg.
Sveitarstjórn samþykkti að farið verði í framkvæmdir við að klára mygluhreinsun á húsi og fjarlægja gólfefni. Öðrum tillögum vinnuhópsins var vísað til vinnufundar sveitarstjórnar.
Í ljósi umræðna um hvernig staðið var að lokun leikskólans Krakkaborgar lét fulltrúi minnihlutans í sveitarstjórn, Svanhvít Hermannsdóttir, bóka að hún kom hvergi að þeirri ákvarðanatöku, enda ekki boðið upp á neitt samráð í málinu. Á það jafnt um lokun leikskólans í Þingborg og flutning hans í Félagslund.
Margrét Sigurðardóttir og Aðalsteinn Sveinsson bentu á að ákvarðanataka varðandi lokun leikskólans í kjölfar myglusvepps var gerð í samráði við hlutaðeigandi aðila og þeir upplýstir um gang mála jafnóðum.