104 milljónir í sektargreiðslu

Héraðsdómur Suðurlands dæmdi í dag framkvæmdastjóra einkahlutafélags á Selfossi í tíu mánaða skilorðsbundið fangelsi og til að greiða 104 milljónir króna í sekt fyrir meiriháttar skattalagabrot.

Maðurinn stóð ekki skil á virðisaukaskattskýrslum og virðisaukaskatti á árunum 2008 og 2009 að fjárhæð tæplega 37 milljónir króna. Þá stóð hann ekki skil á staðgreiðslu opinberra gjalda að fjárhæð tæplega 14 milljónir króna.

Maðurinn sagði fyrir dómi að þær aðstæður, sem óvænt sköpuðust í fjármálalífi hér á landi á árinu 2008, verði að teljast óvænt ytri atvik sem hann hafði enga stjórn á, svokölluð force majeure. Við þessum atvikum hafi hann brugðist með þeim hætti sem hann hafi talið eðlilegastan, heppilegastan og nauðsynlegan með tilliti til björgunar sem mestra verðmæta og af þeim sökum séu athafnir hans refsilausar.

Sagðist hann hafa verið tilneyddur til að forgangsraða meðferð þeirra fjármuna sem bárust í sjóði félagsins, sem í raun hafi verið komið í greiðsluþrot, þannig að sem mestum hagsmunum yrði borgið, m.a. með greiðslum til undirverktaka og starfsmanna, og til kaupa á efni til að halda starfseminni gangandi tímabundið.

Héraðsdómur féllst ekki á þetta og sagði að maðurinn hefði ekki getað búist við að háttsemi hans væri ekki refsiverð, þvert gegn skýrum lagaákvæðum, þrátt fyrir aðstæður í efnahagslífi og samkomulag við sýslumann.

Maðurinn var því dæmdur í fangelsi í 10 mánuði og er refsingin skilorðsbundin til tveggja ára. Þá þarf hann að greiða 104 milljón króna sekt í ríkissjóð en sæta fangelsi í eitt ár greiðist sektin ekki innan 4 vikna. Að auki var manninum gert að greiða skipuðum verjanda sínum 400 þúsund krónur í málsvarnarlaun.

Fyrri greinÚtflutningur að eflast á ný
Næsta greinNoroveirusýking á HSu