Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hefur úthlutað rúmum einum milljarði króna úr Framkvæmdasjóði aldraðra. Þetta er hæsta úthlutun úr sjóðnum til þessa.
Þar af fara rúmlega 107,5 milljónir króna til verkefna á Suðurlandi en af þeim fara rúmlega 90,9 milljónir króna til nýbyggingar við Hjúkrunarheimilið Skjólgarð á Höfn þar sem verður framleiðslueldhús og fjölnotasalur.
Dvalarheimilið Ás í Hveragerði fær samtals rúmlega 6,2 milljónir króna til þess að endurbæta flóttaleiðir, neyðarljós, hurðarpumpur og til þess að setja upp netþjón fyrir eftirlitsmyndavélakerfi. Dvalarheimilið Lundur á Hellu fær rúmlega 5,5 milljónir króna til endurbóta á starfsmannaaðstöðu og bættu aðgengi á neyðarútgöngum.
Þá fara rúmlega 2,8 milljónir króna til Hjúkrunar- og dvalarheimilisins Hjallatúns í Vík í Mýrdal til endurbóta í eldhúsi og vörumóttöku og Sólvellir, heimili aldraðra á Eyrarbakka, fá rúmlega 2 milljónir króna til endurnýjunar á lögnum.
Hlutverk Framkvæmdasjóðs aldraðra er að stuðla að uppbyggingu og efla öldrunarþjónustu um land allt. Úthlutanirnar eru í samræmi við tillögur stjórnar sjóðsins, sem leggur mat á umsóknir í samræmi við reglugerð og gerir tillögur til ráðherra um úthlutanir úr honum.