Gestum í Sundhöll Selfoss fækkaði um ellefu þúsund á milli áranna 2014 og 2015. Skýringuna má rekja til bæði framkvæmda við laugina og rigningarsumars, að mati starfsmanns sveitarfélagsins.
„Til nánari útlistunar á þessu má skýra minni aðsókn þannig að fyrri hluta ársins eða maí til júní var mun minni aðsókn sem helst í hendur við þá röskun sem varð á byggingartíma nýju aðstöðunnar,“ segir Bragi Bjarnason, íþrótta- og menningarfulltrúi Árborgar. Hann segir aðsóknina svo hafa rétt úr kútnum á seinni hluta sumarsins.
„En þar sem mjög fá árskort voru í gangi í fyrra var aðsókn korthafa talsvert minni og enginn líkamsræktarstöð í kjallaranum frá 1. febrúar sem hefur einnig áhrif,“ segir Bragi.
Gestir laugarinnar voru 181.043 árið 2015 en 192.644 árið áður, sem þýðir fækkun upp á 11.601 gest.
Fjöldi gesta í sundlaug Stokkseyrar var hins vegar nokkuð keimlíkur milli áranna 2014 og 2015, eða 13.423 árið 2014 og 13.843 árið 2015.