Héraðsdómur Suðurlands dæmdi í dag karlmann á sextugsaldri til greiðslu 1,1 milljón króna fjársektar fyrir framleiðslu á ólöglegu áfengi á heimili sínu í Hrunamannahreppi.
Maðurinn var ákærður fyrir framleiðslu 172 lítrum af landa með 41% áfengisinnihaldi á tímabilinu frá júlí 2011 til 18. janúar 2013. Lögreglan lagði hald á landann við húsleit á heimili hans í janúar.
Ákærði viðurkenndi skýlaust að hafa gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru. Samkvæmt sakavottorði hafði hann ekki sætt refsingu áður.
Sólveig Ingadóttir, löglærður aðstoðarmaður dómara, taldi hæfilega refsingu ákærða vera 1,1 milljón króna sekt til ríkissjóðs sem manninum ber að greiða innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dómsins, ella sæti hann fangelsi í 40 daga.
Honum var einnig gert að greiða allan sakarkostnað, 17.715 krónur.