1208 nemendur hefja nám í grunnskólum Árborgar

„Ég heyri á skólastjórunum þremur að starfsfólk þeirra gengur til verka nú í haust með opinn huga og tilhlökkun. Hér er í sveitarfélaginu er öflugur hópur kennara, skólastjórnenda og annarra starfsmanna.

Þá hefur samstarf þeirra við starfsfólk nýstofnaðrar skólaþjónustu Árborgar verið gott og þróun þjónustunnar gengur vel. Námskeið fyrir skólastjórnendur leik- og grunnskóla, sem haldið var á síðasta skólaári í samstarfi við menntavísindasvið Háskóla Íslands, gekk afar vel og sýnist mér að það hafi eflt skólastjórnendur okkar í starfi.

Það skilar sér meðal annars í aukinni hæfni þeirra til að leiða þróun skólastarfsins og sterkari faglegum tengslum milli skólanna og innan hvers skóla,“ segir Þorsteinn Hjartarson, fræðslustjóri Sveitarfélagsins Árborgar þegar hann var spurður hvernig haustið legðist í skólamenn í Árborg. Þrír grunnskólar eru í sveitarfélaginu; Sunnulækjarskóli og Vallaskóli á Selfossi og Barnaskólinn á Eyrarbakka og Stokkseyri (BES).

Grunnskólarnir byrjuðu síðastliðinn föstudag en alls verða 1208 nemendur í skólanum í vetur eða 123 nemendur í BES, 560 í Sunnulækjarskóla og 525 í Vallaskóla. Nýir nemendur, sem byrja í sex ára bekk verða 113, eða 13 nemendur í BES, 55 í Vallaskóla og 65 í Sunnulækjarskóla.

Alls munu 219 starfsmenn starfa í grunnskólunum í vetur í mismunandi stöðugildum. Skiptingin er þannig að 42 starfsmenn eru í Barnaskólanum á Eyrarbakka og Stokkseyri, 87 í Vallaskóla og 90 í Sunnulækjarskóla.

Lestrahæfni og málþroski efldur
Þorsteinn segir að margt áhugavert og spennandi sé í gangi í skólum sveitarfélagsins. „Já, ég vil nefna sérstaklega skýrara verklag sem miðar að því að efla lestrarhæfni nemenda og málþroska, svo sem með markvissari notkun bestu mögulegu skimunartækja, og nýta niðurstöður þannig að nemendur sýni góðar framfarir í lestri og öðru námi.

Þá bind ég miklar vonir við metnaðarfullt þróunarverkefni leikskólanna þar sem einnig er unnið með læsi, málörvun og margt fleira. Í leikskólunum er jú lagður mikilvægur grunnur að frekara námi hvers barns í grunnskólum og framhaldsskólum. Málshátturinn „lengi býr að fyrstu gerð“ á vel við í þessu samhengi. Því viljum við leggja mikla áherslu á snemmtæka íhlutun í leikskólunum, þ.e. að hefja íhlutun sem allra fyrst ef grunur vaknar um frávik í þroska ungra barna,“ segir Þorsteinn.

Fyrri greinEkki fleiri stöðvaðir síðan 2008
Næsta greinÞriggja leitað í Raufarhólshelli