12,5 milljónir á Suðurland

Ferðamálastofa mun úthluta 12,5 milljónum króna í styrki vegna úrbóta á ferðamannastöðum á Suðurlandi árið 2011.

Árlega úthlutar Ferðamálastofa styrkjum í þennan málaflokk og í ár bárust 178 umsóknir allstaðar að af landinu. Alls hlutu 28 verkefni styrk að heildarupphæð 33 milljónir króna.

Hæsta styrkinn, 6 milljónir króna vegna tveggja verkefna, fékk félagið Vinir Þórsmerkur vegna hönnunar göngubrúa yfir Markarfljót og viðhald göngustíga í Þórsmörk og Goðalandi.

Katla Jarðvangur ses. fékk 2 milljónir króna sem ráðstafað verður í öryggis- og upplýsingamál í jarðvanginum. Sama upphæð fór til Rangárþings eystra til þess að smíða tröppur við Seljalandsfoss.

Sjálfsbjörg á Suðurlandi fékk 1,5 milljónir króna í styrk til að reisa heilsárs náðhús í Haukadal og Skeiða- og Gnúpverjahreppur fékk hálfa milljón til úrbóta í Þjórsárdal.

Þá fékk Útivist 250.000 krónur til að reisa gassalerni á Fimmvörðuhálsi og Fannborg ehf fékk 250.000 til þess að vinna áhættumat og aðgerðaráætlun í Kerlingarfjöllum.

Styrkjum vegna úrbóta á ferðamannastöðum hefur verið úthlutað árlega frá 1995 og var þetta því í 17. skipti sem úthlutunin fer fram. Á þessum tíma hefur Ferðamálastofa varið yfir 700 milljónum króna til framkvæmda á um 300 stöðum á landinu.

Fyrri greinSelfoss mætir Haukum í kvöld
Næsta greinLögreglan rannsakar bílbruna