Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, tilkynntu í dag um úthlutun til uppbyggingar innviða og annarra verkefna á 130 fjölsóttum stöðum í náttúru Íslands og á öðrum ferðamannastöðum vítt og breitt um landið úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða.
Að þessu sinni var úthlutað 505 milljónum króna til 40 verkefna og þar af fara rúmlega 134 milljónir króna í verkefni á Suðurlandi. Meðal þeirra staða sem fengu hæstu styrkina voru Laufskálavarða í Álftaveri, Reykjadalur í Ölfusi og Hveradalir í Ölfusi.
Markmiðið með úthlutuninni er halda áfram þeirri uppbyggingu innviða sem hafin er til verndar náttúru landsins og menningarsögulegum minjum, sem og uppbyggingar ferðamannastaða.
Auk þeirra ráðstafana sem gerðar eru með úthlutun Landsáætlunar og Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða er áætlað að verja um 1,3 milljörðum króna sérstaklega til landvörslu á næstu þremur árum. Þetta er gert til að tryggja ráðningu heilsársstarfsmanna sem og mönnun á háannatíma á fjölsóttum stöðum og friðlýstum svæðum.
Langstærsti hlutinn fer í Ölfusið
Hæsti sunnlenski styrkurinn fór til Sannra landvætta vegna verkefnisins Laufskálavarða til fyrirmyndar, tæplega 32,2 milljónir króna. Við Laufskálavörðu á að byggja upp öruggara og stærra bílastæði, betri göngustíga, uppfæra merkingar, ráðast í víðtækar aðgerðir vegna náttúruspjalla og til verndar náttúru, bæta innviði fyrir sorphirðu og aðgengi að góðu neysluvatni.
Sveitarfélagið Ölfus fékk tæplega 31,7 milljónir króna til uppbyggingar í Reykjadal á þessu ári. Styrkurinn verður notaður til að bæta malarstíga, bæta við trépöllum og aðstöðu við heita lækinn fyrir gesti. Einnig til að bæta við merkingum með upplýsingum um hættur á staðnum og til að afmarka þau svæði sem ekki skal fara inn á. Jafnframt til gerðar nýrrar brúar yfir Hengladalaá, við upphaf ferðar inn í dalinn.
Þá fengu Hveradalir ehf. tæplega 29,9 milljón króna styrk til bæta stíga í viðkvæmri náttúru við hverasvæðið í Hveradölum. Um er að ræða sjálfberandi göngustíga úr áli sem lágmarka snertipunkta við jörðina og hlífa þannig hinu viðkvæma hverasvæði við Skíðaskálann í Hveradölum.
Forvitnileg verkefni á fleiri stöðum
Aðra styrkir sem fóru á Suðurland fengu Sveitarfélagið Ölfus, 10,9 milljónir króna, til þess að lagfæra stíginn frá bílastæði að hellinum Arnarkeri, Anna María Ragnarsdóttir 9,9 milljónir króna fyrir gönguleið, fræðsluskilti og útsýnispall við Svínafellsjökul, landeigendur í Mörtungu til að afmarka bílastæði og leggja göngustíg að Fagrafossi í Geirlandsá, Skeiða- og Gnúpverjahreppur 6 milljónir króna til að hanna útivistarleiðir um Þjórsárdal, Hrunamannahreppur 5 milljónir króna til stígagerðar við Hrunalaug og Icetrek ehf. 2,3 milljónir króna til að bæta öryggi með frekari stikun á gönguleið frá Sveinstindi í Skælinga og um Eldgjá í Hólaskjól.