Umhverfisstyrkir Landsbankans voru veittir í gær, samtals fimm milljónir króna, en af þeim var samtals 1,5 milljónum króna veitt í fjögur verkefni á Suðurlandi.
Landeigendur í Mörtungu í Skaftárhreppi fengu 500 þúsund króna styrk til þess að bæta aðgengi að Fagrafossi, sem er mjög vinsæll áningarstaður við Lakaveg.
Annar styrkur fór í Skaftárhrepp en framkvæmdahópur um verndun á náttúruperlum í hreppnum fékk 250 þúsund krónur til verndunar Fjaðrárgljúfurs sem er vinsæll áfangastaður vestan Kirkjubæjarklausturs.
Vinir Þjórsárvera fengu 500 þúsund króna styrk til að stika gönguleið meðfram fossaröðinni í Þjórsá frá vegi að Dynk og Gljúfurleitarfossi og upp á veg.
Þá fékk Guðmundur Örn Sverrisson 250 þúsund króna styrk til að koma á fót upplýsingamiðstöð á vefnum um gönguleiðina yfir Fimmvörðuháls og nærliggjandi svæði.
Umhverfisstyrkjum er ætlað að styðja við verkefni á sviði umhverfismála og náttúruverndar og dómnefnd leitast við að velja metnaðarfull verkefni sem hafa skýra þýðingu fyrir íslenska náttúru og vistkerfið. Þessir styrkir byggja á stefnu Landsbankans um samfélagslega ábyrgð þar sem fram kemur m.a. að bankinn hyggist flétta umverfismálum, efnahagsmálum og samfélagsmálum saman við rekstur sinn.
Í dómnefnd sátu: Dr. Brynhildur Davíðsdóttir, dósent í Umhverfis- og auðlindafræðum við HÍ, Finnur Sveinsson, sérfræðingur í samfélagslegri ábyrgð hjá Landsbankanum og Dr. Guðrún Pétursdóttir, forstöðumaður stofnunar Sæmundar Fróða um sjálfbæra þróun við HÍ, en hún var jafnframt formaður nefndarinnar.