Alls var 150 manns bjargað úr bílum sem voru fastir á vegum undir Eyjafjöllum í nótt.
Ástandið var verst við Jökulsá á Sólheimasandi en þar festist bíll í snjó á brúnni kl. 17:00 og stöðvaði alla umferð. Þegar viðbragðsaðilar komu á vettvang var orðin röð bifreiða beggja vegna við og afleitt veður með skafbyl og hlóðst snjór að röðinni.
Þegar var hafist handa við að greiða úr flækjunni en á endanum höfðu björgunaraðilar flutt fólk úr um það bil 45 bifreiðum í húsaskjól, ýmist að Skógum eða Heimalandi, þar sem Rauði krossinn opnaði fjöldahjálparstöð, eða í náttstað þarna nærri ef fólk átti bókaða gistingu þar.
Við verkið voru notaðir bílar björgunarsveita og trukkur frá fyrirtækinu Arcanum. Snjóbíll með tönn var fluttur á vettvang í nótt til að moka frá bílaröðinni og greiða þannig fyrir opnun vegarins en hann er ennþá lokaður þegar þetta er skrifað, kl. 10:25.