Um 150 milljónum króna hefur verið úthlutað til verkefna á Suðurlandi úr framkvæmdasjóði ferðamanna. Langflestir styrkjanna fara til opinberra aðila og aðila sem tengjast sveitarfélögum og stofnunum á vegum sveitarfélaga og ríkisins.
Hæsti styrkurinn, 30 milljónir króna,fer í að bæta stíga við Geysi í Haukadal, og 28,4 milljónir króna eru veittar til að bæta aðgengi og öryggi í Fjaðrárgljúfri.
Mýrdalshreppur fær úthlutað alls 13 milljónum króna til að hanna og byggja upp stíga, tröppur og handrið á hærri hluta Dyrhólaeyjar, sem nefnist Háey. Katla jarðvangur fær 10 milljónir króna til merkinga við áningarstaði og meðfram stígum á völdum stöðum innan jarðvangsins. Sveitarfélagið Ölfus fær 10 milljónir króna til áframhaldandi uppbyggingar göngustíga í Reykjadal, sem og til smíði göngubrúar við nýjan hver.
Rangárþing ytra fær 8,5 milljónir króna í styrk vegna deiliskipulags Landmannalauga. Hveragerðisbær fær styrk upp á 2,9 milljónir króna til að byggja upp fræðslu- og áningarstað í Hveragerðinum og Kerlingafjallavinir hlutu styrk upp á tæpar 3,2 milljónir til að endurbyggja göngubrýr og byggja frá grunni þá þriðju.
Þá eru nokkrir styrkir sem fara í verkefni á vegum Skógræktar ríkisins, svo sem við Systrafoss og í Haukadalsskógi, við Hjálparfoss og í viðhald gönguleiða á Þórsmerkursvæðinu.
Þá falla nokkur af verkefnum sem Umhverfisstofnun hyggst ráðast í, í kjölfar styrkveitingar, innan héraðs.