Í síðustu viku var úthlutað rúmlega 548 milljónum króna úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða fyrir árið 2022. Alls var rúmlega 153 milljónum króna úthlutað til verkefna á Suðurlandi og tveir af hæstu styrkjunum koma á Suðurland.
Rangárþing ytra fékk hæsta styrkinn, 55 milljónir króna, vegna hönnunar og framkvæmda við Fossabrekkur í Ytri-Rangá. Markmiðið með verkefninu er að auka öryggi vegfarenda og bæta aðgengi, um leið og náttúra og ásýnd svæðisins er vernduð. Styrkurinn veittur með fyrirvara um samþykkt deiliskipulag.
Þá fær Katla Jarðvangur rúmlega 35,8 milljón króna styrk til þess að útbúa nýjan útsýnisstíg og myndatökustað við Eyjafjallajökul. Stígurinn mun liggja á útsýnishól þar sem umfjöllun um gosið í Eyjafjallajökli verður gerð góð skil.
Hvetur fólk til að ferðast um Ísland
Framkvæmdasjóðurinn fjármagnar framkvæmdir á ferðamannastöðum og ferðamannaleiðum í eigu eða umsjón sveitarfélaga og einkaaðila. Mikill árangur hefur náðst í starfi sjóðsins í að bæta innviði um land allt og auka getu svæðanna til að taka á móti ferðamönnum.
„Íslensk ferðaþjónusta hefur nýtt tímann vel undanfarið, þrátt fyrir flóknar áskoranir, og staðið vel og rækilega að uppbyggingu. Það þýðir að hringinn í kringum landið hafa verið byggðir upp einstakir áfangastaðir og í öllum landshlutum má finna hlaðborð menningar, nýsköpunar og ferðaþjónustu. Mig langar að hvetja ykkur öll til að ferðast um Ísland, heimsækja stórfenglega náttúru okkar og upplifa menninguna hringinn í kringum landið,“ sagði Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamálaráðherra, þegar styrkjunum var úthlutað.
Ásahreppur fékk fjóra styrki
Alls bárust 154 umsóknir um styrki að fjárhæð rúmlega 2,7 milljarða króna til verkefna að heildarfjárhæð rúmlega 3,6 milljarða króna. Sem fyrr segir var rúmlega 153 milljónum króna úthlutað til verkefna á Suðurlandi.
Ásahreppur fékk fjóra styrki, samtals tæplega 23,9 milljónir króna til þess að trakka og stiga gönguleið á Þóristind, laga kláfinn á Tungnaá, stika veg og gönguslóða að Búðarhálsfossi og til þess að gera gönguleið fyrir alla fjölskylduna á Vatnsfell. Þá fékk Mýrdalshreppur 17,1 milljón króna styrkt til búa til nýjar gönguleiðir, aðbúnað og útsýnispall í hlíðum Reynisfjalls, þar sem fyrir er straumur fólks við óöruggar aðstæður.
Rangárþing eystra fékk þrjá styrki, samtals rúmlega 7,4 milljónir króna til þess að útbúa varanlega stíga austan við Gluggafoss, bæta aðgengi og öryggi á Landeyjasandi við Landeyjahöfn og til þess að bæta aðkomu og upplýsingagjöf við Efra-Hvolshella.
Gljásteinn ehf fékk 5,5 milljón króna styrk til þess að endurnýja og bæta salernisaðstöðu fyrir fatlaða í Árbúðum við Kjalveg og Kambagil ehf fékk 4,8 milljónir króna til þess að leggja göngustíg við Svartagljúfur. Stígurinn mun liggja upp að efsta fossi gljúfursins, þar sem Hengladalsáin steypist ofan í gljúfrið. Þessi gönguleið er nú þegar mikið sótt af ferðamönnum og heimamönnum, sérstaklega vegna gönguleiðarinnar inn í Reykjadal.
Hestamannafélagið Geysir fékk tvo styrki, samtals rúmlega 1,8 milljón króna til þess að útbúa tvö áningarhólf að Fjallabaki, á Emstruleið og í Laufaleitum og Bjarni Jón Finnsson fékk rúmlega 1,7 milljón króna styrk til þess að útbúa skilti og endurnýja og fjölga stikum á tveimur gönguleiðum í Þakgili.