Íbúar Hveragerðisbæjar eru nú 2.362 talsins og hefur fjölgað um ríflega 2% á þessu ári. Fjölmennasti árgangur bæjarins er fæddur árið 1996 og hefur hann nú velt 1960 árgangnum úr toppsætinu.
Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri, segir frá þessu á bloggsíðu sinni.
„Fjölmennasti árgangur bæjarins er fæddur 1996 og sá næstfjölmennasti er fæddur 1960. Þau hafa alltaf verið fjölmenn en hafa nú misst efsta sætið í hendur hinna 18 ára,“ segir Aldís og bætir við að mikil sala sé á fasteignum í Hveragerði þessa dagana.
„Að sögn fasteignasalanna vantar fleiri eignir á sölu enda vilja nýir íbúar hafa úr einhverju að velja þegar framtíðarheimilið er valið. Tvö raðhús með 10 íbúðum hafa nú risið við Dalsbrún og vonandi sjá fleiri möguleikana sem fólgnir eru í frekari uppbyggingu,“ segir Aldís.