200 gestir í afmælisveislu

Ungmennafélag Selfoss er 75 ára í dag og af því tilefni var boðið til afmælisveislu í hátíðarsal FSu í kvöld.

Um 200 gestir mættu til veislunnar en í upphafi hennar risu gestir úr sætum og minntust tveggja látinna Selfyssinga, Kolbeins Inga Kristinssonar og Vilhelms Þórs Guðmundssonar.

Björn Ingi Gíslason var veislustjóri kvöldsins og hóf hann dagskrána á að fá gesti til að syngja Fyrr var oft í koti kátt. Að því loknu voru flutt ávörp en fyrstur steig á stokk formaðurinn, Grímur Hergeirsson, og fór hann yfir starf félagsins í fortíð, nútíð og framtíð.

Kristinn M. Bárðarson, formaður afmælisnefndarinnar, flutti ávarp þar sem hann fór yfir starf nefndarinnar en ásamt honum sátu Elínborg Gunnarsdóttir, Bogi Karlsson, Guðmundur Kr. Jónsson og Bárður Guðmundarson í nefndinni.

Sigríður Jónsdóttir, frá framkvæmdastjórn ÍSÍ, steig í pontu og færði félaginu áletraðan skjöld að gjöf. Þá sæmdi hún tvo Selfyssinga gullmerki ÍSÍ, þá Helga S. Haraldsson, formann frjálsíþróttadeildarinnar og Svan Ingvarsson, sem unnið hefur ötult starf fyrir sunddeild Selfoss og fatlaða íþróttamenn á Suðurlandi. Hallur Halldórsson, fyrrverandi formaður handknattleiksdeildarinnar og Olga Bjarnadóttir, fimleikaþjálfari voru sæmd silfurmerki ÍSÍ og fimleikadeildin fékk endurnýjun á gæðastimplinum fyrirmyndardeild ÍSÍ.

Formaður UMFÍ, Helga Guðjónsdóttir, ávarpaði samkomuna og veitti tveimur Selfyssingum starfsmerki UMFÍ, þeim Guðmundi Tryggva Ólafssyni, máttarstólpa júdódeildarinnar og Ófeigi Leifssyni, formanni taekwondodeildar.

Guðríður Aadnegard, formaður HSK, flutti ræðu um mikilvægi sjálfboðaliða í íþróttahreyfingunni og í lok máls síns sæmdi hún Helga S. Haraldsson silfurmerki HSK.

Grímur Arnarson, formaður Íþrótta- og tómstundanefndar Árborgar, flutti blaðalaust létta og líflega ræðu þar sem hann færði samkomunni kveðju frá sveitarfélaginu og afhenti formanni Umf. Selfoss blómvönd frá bænum.

Að því loknu steig Gylfi Orrason, varaformaður KSÍ, á stokk og sæmdi þrjá Selfyssinga silfurmerki KSÍ. Þetta voru þeir Anton Hartmannsson, Sveinn Jónsson og Jón Steindór Sveinsson.

Vésteinn Hafsteinsson var síðasti gesturinn til þess að ávarpa samkomuna. Hann þakkaði boðið í veisluna og minntist uppeldisins í ungmennafélaginu á Selfossi. Að því loknu færði hann frjálsíþróttadeildinni hálfa milljón króna að gjöf í tilefni afmælisins. „Það er það minnsta sem ég get gert til að þakka fyrir mig,“ sagði Vésteinn.

Dagskráin var þvínæst brotin upp með tónlistarflutningi en systkinin Kristjana og Gísli Stefánsbörn fluttu þrjú lög við undirleik Vignis Þórs Stefánssonar.

Formlegri dagskrá lauk á því að félagar voru sæmdir gull- og silfurmerkjum Umf. Selfoss. Fjórtán félagar fengu silfurmerki og fjórir gullmerki, þau Einar Jónsson, Elínborg Gunnarsdóttir, Gísli J. Jónsson og Sveinn R. Sveinsson en sá síðastnefndi er elsti starfandi félagsmaðurinn og hefur keppt í kringlukasti undir merkjum Selfoss óslitið í 62 ár.

Að þessu loknu var gestum boðið í glæsilegt kaffihlaðborð þar sem gamlar sögur voru rifjaðar upp.

Afmælinu er fagnað með útgáfu á glæsilegu hátíðarriti, Braga, og á morgun, fimmtudag, verður hátíð á íþróttavellinum fyrir yngstu félagsmennina, frá kl. 11 til 13.

Fyrri greinÞyrla sótti hjólreiðamenn
Næsta greinÚtskriftarhóf hjá Sleipni