200 klukkustundir fóru í að sauma upphlut

Margrét Katrín Erlingsdóttir, eigandi Hjá Maddý á Selfossi og fyrrverandi bæjarfulltrúi í Árborg, gerði sér lítið fyrir nú á haustdögum og saumaði á sig 19. aldar peysufatapeysu.

Þá lauk hún sínu öðru námskeiði í þjóðbúningasaum hjá Heimilisiðnaðarfélagi Íslands.

„Ég varð fimmtug 2012 og þá fannst mér að tími væri kominn til að láta þennan draum rætast. Mér fannst ég líka hafa svo mikinn tíma aflögu eftir að ég hætti í sveitastjórnarmálunum,” segir Margrét sem segir að þarna um sumarið hafi Fræðslunet Suðurlands auglýst námskeið í þjóðbúningasaum. „Námskeiðið var haldið hér á Selfossi og Oddný Kristjánsdóttir frá Ferjunesi sá um að kenna það. Ég ákvað að skrá mig og má segja að ég sé fallin fyrir þessu verkefni að suma þjóðbúninga.”

Alin upp við niðinn í saumavélinni
Margrét segir að hún sé alin upp við nið saumavélar. „Mamma mín saumaði allan fatnað á okkur systkinin og einnig hvað sem var á sjálfa sig. Þannig að ég var mjög ung þegar ég fór að sauma á saumavél, ég saumaði allan fatnað á strákana mína þegar þeir voru litlir,” segir Margrét en hún saumaði einnig fötin sem eiginmaður hennar klæddist þegar þau giftu sig. Þá saumaði Margrét íslenska þjóðbúninginn á yngri syni sína.

Margrét segir að það hafi alltaf verið draumur hjá sér að eignast íslenska þjóðbúninginn. „Ég held að ástæðan sé meðal annars sú að á 50 ára afmælishátíð Helluþorps vorum við nokkur ungmenni fengin til að sýna þjóðdansa og þá klæddi Lóa í Árbæ okkur allar stelpurnar upp, ýmist í upphlut eða peysuföt. Mér fannst upphluturinn svo fallegur og langaði ekki í neitt eins mikið og einn slíkan,” segir Margrét.

Allur frítími fór í saumaskap
Hún segir að það að sauma þjóðbúning sé ótrúlega mikil vinna enda er 90 prósent af honum saumaður í höndunum. Allur hennar frítími núna í haust hafi í raun farið í saumaskapinn. „Ég verð samt að segja að mér finnst í raun ekkert mál að sauma þjóðbúning, hvort sem það sé upphlutur eða peysuföt. Ég hélt að það væri flóknara” segir Margrét sem telur að sá tími sem hafi farið í það að sauma upphlutinn hafi verið um 200 klukkustundir. „Ég fór í vinnuna klukkan átta á morgnanna og var komin heim um fjögur og fór þá að sauma og var að til kannski tíu, ellefu um kvöldið. Svo fóru helgarnar í saumaskap en þá kannski byrjaði ég klukkan ellefu og sat við saumaskapinn fram á kvöld.”

Margrét segir að ferlið á svona námskeiði sé það að kennarinn taki mál af nemendum, teiknar snið og sníður flíkurnar úr efnunum sem þeir hafa valið sér. „Svo tekur við saumaskapur í höndunum. Hver flík er þrædd saman lið fyrir lið, nær allt er saumað í höndunum eins og formæður okkar gerðu. Allt gert til að halda við íslenska handverkinu,” segir Margrét sem segir að þjóðbúningasaumur íslenskra kvenna sé listaverk í orðsins fyrstu merkingu.

Saumaði upphlut fyrir góða vinkonu
En á námskeiðinu var Margrét ekki bara að suma þjóðbúning fyrir sjálfa sig heldur saumaði hún einnig 20. aldar peysuföt á Elsu Ingjaldsdóttur vinkonu sína. „Einnig saumaði ég fyrir hana það sem hana vantaði upp á í upphlut. Hún átti 20. aldar upphlut (kotið) frá ömmu sinni sem ég tók og lagaði þannig að hún gæti nýtt það, saumaði síðan á hana silkiskyrtu og svuntu við, en báðar nýtum við sama pilsið við upphlutinn og peysuna.” Margrét segir að markmið sitt og Elsu hafi verið að klára upphlutinn fyrir 1. desember vegna þess að Elsa ætlaði að vígja hann í boði sem forseti Ísland hélt. Og að það hafi tekist.

Þjóðbúningurinn minn er mín spariföt
Margrét segir að margar konur eigi þjóðbúning sem þær noti lítið sem ekkert. „Það er mikilvægt ef að maður á þjóðbúning að finna sér tækifæri til að nýta hann, ég klæddi mig til dæmis upp á kjördag og fór á kjörstað í upphlutnum. Ég reyni að nota hvert tækifær sem gefst, um jól, í fermingar, á 17. júní og svo mætti lengi telja. Því þjóðbúningurinn minn er mín spariföt.

Og með vorinu stefnir Margrét á að fara á þriðja námskeiðið í þjóðbúningasaum. Þar ætlar hún að sauma undirpils fyrir sig og Elsu, Margrét segir að hún sé komin með þjóðbúningadelluna og að þá sé erfitt að stoppa. „Ég stefni á að sauma á ömmustelpurnar mínar næsta haust en svo er ekki gott að segja hvað komi þar á eftir,” segir Margrét sem bætir því við að lokum að aðal málið í lífinu sé það að nota tímann í það sem manni sjálfum þyki skemmtilegt og grípa tækifærin er þau bjóðast.

Fyrri greinÚrskurðaður í gæsluvarðhald vegna rannsóknar á íkveikju
Næsta greinSelfoss steinlá gegn Víkingi