211 milljónum króna úthlutað í verkefni á Suðurlandi

Verkefnið Jöklaleið fékk hæsta styrkinn úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða. Matthildur Ásmundsdóttir, bæjarstjóri Hornafjarðar, Árdís Erna Halldórsdóttir, atvinnu- og ferðamálafulltrúi, Brynja Dögg Ingólfsdóttir, umhverfis og skipulagsstjóri og Hlynur Axelsson, arkitekt kynntu verkefnið. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Í gær gerðu ferðamálaráðherra og umhverfisráðherra grein fyrir úthlutun fjármuna til uppbyggingu innviða, náttúruverndar og annarra verkefna á ferðamannastöðum árið 2021.

Samtals var úthlutað 764 milljónum króna úr Landsáætlun um uppbyggingu innviða og 807 milljónum úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða sem gerir kleift að halda áfram því mikilvæga verkefni að byggja upp innviði á ferðamannastöðum. Alls var rúmlega 211,2 milljónum króna úthlutað í verkefni á Suðurlandi.

Fjölbreytt verkefni á Suðurlandi
Ferðafélag Útivist fær tæpar 6,4 milljónir króna til þess að hanna göngubrú í Þórsmörk, yfir Þröngá norðan við Rjúpnafell og Hestamannafélagið Geysir fær rúmlega hálfa milljón til að koma upp áningarhólfi við Dómadalsleið að Fjallabaki til þess að stýra hvar stöðvað er með hestahópa og koma í veg fyrir gróðurskemmdir á viðkvæmu landsvæði.

Þá fá Pílagrímar áhugafélag 400 þúsund króna styrk til að endurnýja stikur, hlaða vörður og bæta upplýsingaskilti, prílur og vegpresta á pílagrímaleiðinni frá Bæ í Skálholt og Hveradalir ehf fá rúmlega 18,3 milljón króna styrk til þess að leggja gönguleið milli efra og neðra hverasvæðis í Hveradölum með samtengingu svífandi stíga.

Við Brúarhlöð. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Verkís fær 4 milljón króna styrk til að hanna útsýnisstað í Víkurfjöru og Hrunamannahreppur fær 5,5 milljón króna styrk til að vinna áfram að og ljúka við deiliskipulag og hönnun áningarstaða við Brúarhlöð. Einnig fær Hveragerðisbær fær 4,8 milljón króna styrk í frumhönnun fræðslu- og upplifunarstígs með útsýnis og áningarstöðum í árgili Varmár á milli Fossflatargarðs og Baulufoss.

Rangárþing eystra fær þrjá styrki; rúmlega 19,3 milljón króna styrk til þess að hanna og gera varanlegan stíg, útsýnispall og tröppur upp með Gluggafossi í Fljótshlíð ásamt fleiri úrbótum og einnig rúmlega 7,4 milljón króna styrk til þess að ljúka stíga- og skiltagerð við Kvernugil og Kvernufoss í Skógum. Einnig fær Rangárþing eystra tæplega 14,8 milljón króna styrk til þess að gera nýtt bílastæði, stíga og skilti við Nauthúsagil.

Mýrdalshreppur fær tæplega 1,2 milljón króna styrk til að hanna útsýnispall í hlíðum Reynisfjalls og Skaftárhreppur fær rúmlega 6,6 milljón króna styrk til að lagfæra göngustíg, skilti og prílur á Ástarbrautinni, sem er gönguleið í Klausturheiði.

Að lokum fær Sveitarfélagið Hornafjörður rúmlega 97,4 milljónir króna til að hanna og við framkvæmdir við Jöklaleið, göngu- og hjólastíg frá Svínafelli yfir í þjóðgarðinn í Skaftafelli og einnig 24,6 milljón króna styrk til að halda hönnunarsamkeppni fyrir Leiðarhöfða, sem er vinsæll útsýnisstaður.

Þórdís Kolbrún og Guðmundur Ingi gerðu grein fyrir úthlutuninni. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Mjög jákvæð þróun
„Hér bætist enn myndarlega við þau mörg hundruð verkefni sem Framkvæmdasjóðurinn hefur styrkt á undanförnum árum. Smám saman, en þó örugglega, er að verða bylting í aðstöðu við bæði gamla og nýja ferðamannastaði á Íslandi. Og sífellt liggur meiri heildarsýn á bak við þessa uppbyggingu, sem endurspeglast í tengingum við áætlanir hvers landshluta um uppbyggingu á sínu svæði. Það er mjög jákvæð þróun,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

Sjá fyrir endann á mörgum framkvæmdaverkefnum
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, segir Landsáætlun um uppbyggingu innviða, og þriggja ára verkefnaáætlunin henni fylgjandi, vera verkfæri sem hefur sannað sig vel á síðustu þremur árum.

„Við höfum séð afar jákvæða þróun til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum um allt land. Það skiptir máli að byggja á faglegu mati sérfræðinga um ástand svæða, hafa fyrirsjáanleika og fjármagn til langtímaáætlunargerðar en einnig þegar bregðast þarf hratt og örugglega við óvæntu álagi vegna ferðamanna, eins og við höfum gert. Nú þegar við gefum verkefnaáætlunina út í fjórða sinn erum við að sjá fyrir endann á mörgum framkvæmdaverkefnum, stórum og smáum, sem ég veit að munvernda viðkvæma náttúru og styðja við góða upplifun fólks á ferð sinni um landið,“ segir Guðmundur Ingi. 

Fyrri greinPálmi Geir íþróttamaður Hamars 2020
Næsta grein„Gleðiefni að málefni barna séu sett í skýran forgang“