Í dag eru 22 einstaklingar í einangrun á Suðurlandi vegna COVID-19.
Þá eru 18 manns í sóttkví, eftir að hafa verið útsettir fyrir smiti og 143 eru í sóttkví eftir skimun á landamærunum. Þetta kemur fram í tölum frá Heilbrigðisstofnun Suðurlands.
Athygli er vakin á því að ósamræmi í fjöldatölum á milli hsu.is og covid.is skýrist af því að á hsu.is eru bæði taldir þeir sem eiga lögheimili á Suðurlandi og einnig þeir sem koma annarsstaðar að en kjósa að dvelja á Suðurlandi í sóttkví eða einangrun. Reyndar hafa heilbrigðisyfirvöld hvatt fólk til þess að flytja sig alls ekki á milli heilbrigðisumdæma í veikindum sínum og þess þá síður að fólk flytji sig lengra frá sérhæfðri aðstoð, eins og upp í sumarbústaðina sína.
Flestir eru í einangrun í Hveragerði, níu einstaklingar og þar eru átta í sóttkví. Fjórir eru í einangrun í Þorlákshöfn og fjórir í Vík í Mýrdal.
Í gær greindust fjórir innanlands með COVID-19 og voru tveir þeirra í sóttkví að því er fram kemur á covid.is.