Framboð á gistingu í Hveragerði mun aukast gríðarlega næsta sumar og er ljóst að fá ef nokkur sveitafélög bjóða nú upp á jafn marga gistimöguleika.
Eins og komið hefur fram eru miklar breytingar fyrirhugaðar á rekstri Heilsustofnunar NLFÍ næsta sumar en þá verður opnað hótel í húsakynnunum á meðan hefðbundin starfsemi liggur niðri í átta vikur.
Með tilkomu Hótel Hot Spring í Hveragerði mun gistirými í Hveragerði aukast til muna en næsta sumar verða 234 hótelherbergi í Hveragerði samkvæmt talningu sem kemur fram á heimasíðu sveitarfélagsins.
Er þetta án efa met miðað við íbúatölu en Hvergerðingar eru í dag 2.317. Þannig að það er eitt hótelherbergi á hverja 10 íbúa.
Auk herbergjanna á Hotel Hot Spring, Hótel Örk, Gistiheimilinu Frumskógum og Gistiheimilinu Frosti og funa er einnig glæsilegt tjaldsvæði í bænum fyrir þá fjölmörgu sem ferðast með tjöld, fellihýsi, tjaldvagna eða á húsbíl.