Fjöldi þinglýstra kaupsamninga um fasteignir á Suðurlandi í nóvember síðastliðnum var 102. Heildarveltan á fasteignamarkaðnum á Suðurlandi var tæplega 2,5 milljarðar króna í mánuðinum.
Þar af voru átján samningar um eignir í fjölbýli, 51 samningur um eignir í sérbýli og 33 samningar um annars konar eignir.
Meðalupphæð á samning var 24,4 milljónir króna en ekki hægt að túlka meðalupphæðina sem meðalverð eigna og þar með sem vísbendingu um verðþróun, þar sem hver kaupsamningur getur verið um fleiri en eina eign auk þess sem eignir eru misstórar og misgamlar.
Af þessum 102 voru 58 samningar um eignir í Árborg, Hveragerði og Ölfusi. Þar af voru þrettán samningar um eignir í fjölbýli, 37 samningar um eignir í sérbýli og átta samningar um annars konar eignir. Heildarveltan á Árborgarsvæðinu var tæplega 1,6 milljarður króna og meðalupphæð á samning 27,5 milljónir króna.
Þetta er stærsti nóvembermánuður á fasteignamarkaðnum á Árborgarsvæðinu síðan í nóvember 2007, þegar veltan var tæpir 2,2 milljarðar. Á Suðurlandi öllu er heildarveltan svipuð og í nóvember undanfarin tvö ár.