2,5 milljónir í sekt fyrir ítrekuð umferðarlagabrot

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Í gær dæmdi Héraðsdómur Suðurlands konu til þess að greiða 2,5 milljónir króna í sekt og svipti hana ökurétti til fimm ára fyrir ítrekuð umferðarlagabrot. Auk þess þarf konan að greiða málskostnað upp á tæpar 2,4 milljónir króna.

Konunni var gert að sök að hafa ítrekað ekið bíl undir áhrifum ávana- eða fíkniefna, slævandi lyfja eða áfengis. Alls voru ákæruliðirnir sjö. Tvö brotanna áttu sér stað í Reykjavík og fimm á Selfossi, á tímabilinu frá júní 2019 til júní 2020. 

Í einu tilvikinu stöðvaði lögreglan för konunnar þar sem hún ók afturábak á bílastæði við lögreglustöðina á Selfossi.

Konan neitaði sök í öllum ákæruliðum og fram kemur í dómnum að við yfirheyrslur kannaðist hún aldrei við að hafa verið undir stýri en konan breytti þeim framburði við aðalmeðferð málsins og kannaðist þá við að hafa ekið bílnum.

Í dómnum kemur fram að konan eigi langa veikindasögu og taki þrettán mismunandi lyf á hverjum degi. Þá lagði hún vottorð frá geðlækni þar sem fram kemur að henni sé óhætt að stjórna ökutæki undir áhrifum þeim lyfja sem um ræðir. Vottorðið dugði þó ekki til þess að sleppa við ökuréttarsviptingu því það var gefið út löngu eftir að brot konunnar voru framin.

Konan var sömuleiðis dæmd fyrir skjalabrot en í einu tilviki var hún á ferðinni á bíl með röngum bílnúmerum. Konan kvaðst hafa fundið bílnúmerin á víðavangi þar sem hennar bílnúmerum hafði verið stolið.

Greiði konan ekki sína sekt innan fjögurra vikna mun hún þurfa að sitja í fangelsi í 68 daga.

Fyrri greinLið Húsasmiðjunnar sigraði parafimina
Næsta greinHamar í undanúrslit