Þessa dagana er verið að undirbúa gróðursetningu vorsins í Hekluskógum, en vorkoman er heldur seinni á ferðinni en síðustu ár.
Verkefnið stefnir að gróðursetningu um 280 þúsund plantna í ár og mun aukning verða á áburðardreifingu bæði kjötmjöli og tilbúnum áburði. Landgræðsla ríkisins mun styðja við verkefnið með áburðardreifingu yfir eldri gróðursetningasvæði þetta vorið, auk þess að samvinna er við Landsvirkjun um kjötmjölsdreifingu. Fjöldi sjálfboðaliðasamtaka heldur áfram stuðningi við verkefnið sem og þeir rúmlega 210 landeigendur sem hafa gert samning við verkefnið.
Málþing um Hekluskóga var haldið í Gunnarsholti fyrir skömmu. Málþingið var ágætlega sótt og mættu milli 50-60 gestir. Tilefni þess að málþingið var haldið er að 10 ár eru síðan undirbúningur Hekluskóga hófst af fullum krafti með skipun samráðsnefndar um Hekluskóga sem vann að undirbúningi verkefnisins. Áður hafði nefnd á vegum Landgræðslu ríkisins starfað í tvö ár að undirbúningi verkefnisins. Hekluskógar tóku formlega til starfa í maí 2007 þegar samningur um verkefnið var undirritaður.
Hekluskógar eru verkefni sem snýst um að græða upp land og rækta birkiskóg. Markmiðið er að koma upp birkilundum sem víðast um hið víðlenda starfssvæði Hekluskóga sem nær yfir 90 þúsund ha svæði frá Gunnarsholti í suðri allt upp í Sigöldulón í norðri. Munu þessir birkilundir smám saman sá sér út yfir landsvæðið af sjálfsdáðum og binda öskufok sem verða mun þegar Hekla gýs. Þannig munu skóg og kjarrlendin vernda byggðir og ræktarlönd í lágsveitum.