Í dag var úthlutað í fimmta sinn úr Menningarsjóði Suðurlands. Friðrik Erlingsson og Gunnar Þórðarson fengu hæsta staka styrkinn, tvær milljónir króna.
Verkefni Friðriks og Gunnars er ný íslensk ópera sem ber nafnið Ragnheiður og fjallar um Ragnheiði Brynjólfsdóttur, biskupsdóttur í Skálholti.
Alls bárust 145 umsóknir til sjóðsins að upphæð 98 milljónum króna. Stjórn Menningarráðs Suðurlands samþykkti að veita 96 umsækjendum styrki og til úthlutunar voru 30 milljónir.
Listasafn Árnesinga fékk sömuleiðis tvær milljónir og eru þær eyrnamerktar fjórum verkefnum í safninu. Sveitarfélagið Árborg fékk 1,1 milljón vegna fjögurra verkefna og Hveragerðisbær milljón vegna þriggja verkefna.
Meðal smærri styrkja var 300 þúsund króna styrkur til þjóðháttasmiðju Önnu Heiðu Kvist á Hvolsvelli og leikhópurinn Gaukurinn í Skeiða- og Gnúpverjahreppi fékk sömu upphæð. Þar á að setja upp leiksýningu um Gauk Trandilsson á Stöng. Þá fékk Fótspor, félag um sögu og minjar í Skaftárhreppi, fékk 250 þúsund til uppbyggingar neyðarskýlisins við Skaftárós.
Við athöfnina var undirritaður nýr samningur til eins árs milli SASS og ráðuneyta menningar og iðnaðar en samningurinn er forsenda þess að þessi úthlutun fari fram.