Alls kom 61 nemandi við sögu skólahalds Fjölbrautaskóla Suðurlands í fangelsunum á nýliðinni haustönn skólans. Af þeim luku 33 námsmati, 24 á Litla-Hrauni og níu á Sogni.
Þeir 33 sem luku námsmati voru alls skráðir í 35 mismunandi áfanga í sextán námsgreinum og 447 einingar. Þar af stóðust samtals 160 einingar eða tæp 36%.
Þrír kennarar frá FSu sinntu staðbundinni kennslu í Sogni auk þess sem kennslustjóri og náms- og starfsráðgjafi koma þangað einu sinni í viku, sinn daginn hvort.
Á Litla-Hrauni sinntu sjö kennarar staðbundinni kennslu, en þar hafa kennslustjóri og náms- og starfsráðgjafi einnig fasta viðveru og starfsaðstöðu. Sérkennsla var aukin þegar á leið önnina og var í boði tvisvar í viku á Litla-Hrauni og einu sinni í viku á Sogni.
Auk ofangreindra voru átta FSu-kennarar með sjö fjarnámsnemendur í níu mismunandi áföngum.